Íslensku landsliðsmennirnir Hörður Björgvin Magnússon og Arnór Sigurðsson skoruðu báðir í 0-3 sigri CSKA Moskvu á Ural í fyrsta leik dagsins í rússnesku úrvalsdeildinni.
Með sigrinum komst CSKA Moskva á topp deildarinnar. Liðið hefur unnið fimm leiki í röð.
Hörður Björgvin náði forystunni fyrir CSKA Moskvu þegar hann skoraði með skemmtilegu skoti á 17. mínútu.
Á 57. mínútu rak Arnór smiðshöggið á laglega sókn CSKA Moskvu og kom gestunum í 0-2. Fjórum mínútum síðar var Arnór tekinn af velli.
Jaka Bijol skoraði þriðja mark gestanna á 65. mínútu og þeir fengu svo vítaspyrnu ellefu mínútum síðar. Fedor Chalov brást hins vegar bogalistin. Það kom ekki að sök og CSKA Moskva fagnaði öruggum sigri.
Fótbolti