Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, leggst gegn því að lögð verði á veggjöld til að fjármagna samgönguuppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu.
„Með þessi fyrirhuguðu veggjöld þá náttúrlega höfum við áhyggjur af því að þetta geti opnað á einkavæðingu,“ segir Sanna í samtali við Vísi en hún lýsti þessum sjónarmiðum einnig á fundi borgarstjórnar í gær þar sem fram fór fyrri umræða um nýundirritað samkomulag ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu til næstu fimmtán ára.
Hún fagnar því að gera eigi úrbætur, einkum á almenningssamgöngukerfinu, en setur þó spurningamerki við þær hugmyndir að fjármagna stóran hluta kostnaðar með veggjöldum í einhvers konar útfærslu. „Maður spyr sig náttúrlega hver myndi þá sjá um þetta og það yrði þá væntanlega einhver sem myndi þurfa að fylgjast með þessu kerfi og maður hefur áhyggjur af því að þetta sé skref í átt að markaðsvæðingu.“
Það sé að hennar mati áhyggjuefni ef ekki sé hægt að fjármagna uppbyggingu samgöngukerfisins úr sameiginlegum sjóðum. „Þar að auki eru þetta gjöld sem að myndu alltaf leggjast þyngst á láglaunafólk af því að þetta er náttúrlega alltaf hlutfallslega meira af tekjum þeirra heldur en tekjum annarra.“
Hún vilji frekar skoða aðra kosti, til dæmis að leggja á svokallað kílómetragjald. „Þá væri bara hægt að skoða bara í rauninni hvað viðkomandi hefur ekið marga kílómetra og hann myndi þá bara greiða af því. Það væri þá bara einhver gjaldskrá til dæmis þar sem að væri kannski ákveðið gjald fyrir bensínbíla, ákveðið gjald fyrir vistvæna bíla, og inn í það væri þá hægt að setja kannski að þeir sem að væru tekjulægstir greiði þá aldrei meira en eitthvað visst,“ segir Sanna.
