Innlent

Ætla mögulega að óska eftir gögnunum í dag

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Einar Þór Sverrisson, lögmaður Ara, og Ari Brynjólfsson, blaðamaður Fréttablaðsins.
Einar Þór Sverrisson, lögmaður Ara, og Ari Brynjólfsson, blaðamaður Fréttablaðsins. Vísir/vilhelm
Lögmaður Ara Brynjólfssonar, blaðamanns Fréttablaðsins, mun mögulega fara fram á það í dag að Seðlabankinn afhendi Ara gögn um starfslokasamning Ingibjargar Guðbjartsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits bankans. Héraðsdómur Reykjaness dæmdi Ara í vil í máli Seðlabankans gegn honum í morgun.

Seðlabankinn stefndi Ara til að fá úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá því í júlí síðastliðnum felldan úr gildi. Nefndin taldi Seðlabankanum skylt að veita Ara upplýsingar um námsstyrk sem Ingibjörg fékk þegar Már Guðmundsson, þáverandi Seðlabankastjóri, gerði við hana starfslokasamning. Fréttablaðið hefur eftir heimildum sínum að Ingibjörg hafi fengið greitt á annan tug milljóna króna við starfslokin, bæði með launagreiðslum án kröfu um vinnuframlag og námsstyrk við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum.

Sjá einnig: Spurði hvort sami leyndarhjúpur ríkti ef Ingibjörg hefði fengið gullstöng eða bíl

Einar Þór Sverrisson lögmaður Ara segir í samtali við Vísi að niðurstaðan í dag hafi verið ánægjuleg. Þá muni Einar, fyrir hönd Ara, óska eftir því að Seðlabankinn afhendi gögnin. Það verði mögulega gert í dag.

„Sú beiðni sem þeir settu fram um frestun réttaráhrifa er ekki í gildi lengur eftir að dómur er fallinn,“ segir Einar.

Ekki fengust upplýsingar um það frá Seðlabankanum hvort bankinn hygðist áfrýja dómnum. Stefán Jóhann Stefánsson ritstjóri Seðlabankans segir í svari við fyrirspurn Vísis að dómur héraðsdóms sé í skoðun. Engra frétta sé að vænta strax, m.a. vegna þess að seðlabankastjóri sé nú á ársfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.


Tengdar fréttir

Seðlabankinn dæmdur til að láta blaðamanninn hafa upplýsingarnar

Seðlabanki Íslands var í Héraðsdómi Reykjaness í morgun dæmdur til að afhenda Ara Brynjólfssyni, blaðamanni Fréttablaðsins, upplýsingar um starfslokasamning sem Már Guðmundsson, þáverandi Seðlabankastjóri, gerði við Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits bankans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×