Framarinn Lena Margrét Valdimarsdóttir átti frábæran leik í sigri Fram U á Val U í Grill 66 deild kvenna í handbolta.
Lena Margrét skoraði 20 mörk í 41-29 sigri Fram í þessum leik eða fimmtán mörkum meira en næstmarkahæsti leikmaður Framliðsins.
Lena Margrét, sem er nítján ára og var kosin efnilegasti leikmaður Olís deildar kvenna á síðasta tímabili, hefur ekki fengið mikið að spila hjá aðalliði Fram í vetur. Hún fær aftur á móti að njóta sín með ungmennaliði félagsins sem spilar í Grill 66 deild kvenna.
Lena Margrét hefur alls skorað 60 mörk í fyrstu fimm leikjum Fram U í Grill 66 deild kvenna eða 12 mörk að meðaltali í leik. Hún hafði einnig skorað 13 mörk og 11 mörk í leik fyrr í vetur. Framliðið hefur unnið alla leiki sína til þessa.
Lena Margrét hefur verið í stórum hlutverkum í yngri landsliðum Íslands en hún spilar sem örvhent skytta.
