Handbolti

Enn tapa Haukar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Karen Helga og samherjar eru á botni Olís-deildarinnar.
Karen Helga og samherjar eru á botni Olís-deildarinnar.
Haukar eru enn án stiga í Olís-deild kvenna eftir fjórar umferðir en Haukar töpuðu 25-23 fyrir KA/Þór á Ásvöllum í kvöld.

Jafnræði var með liðunum framan að fyrri hálfleiknum en staðan var 7-7 eftir tuttugu mínútna leik.

Við tók frábær kafli hjá gestunum sem leiddu með sex mörkum er liðin gengu til búningsherbergja, 15-9.

Það bil náðu Haukarnir aldrei að brúa. Minnstur varð munurinn eitt mark, 22-21, en norðanstúlkur höfðu að lokum betur.

Markaskorið dreifðist vel hjá KA/Þór. Ásdís Sigurðardóttir skoraði fimm mörk og þær Martina Corkovic, Martha Hermannsdóttir og Hulda Bryndís Tryggvadóttir skoruðu fjögur mörk hver.

Berta Rut Harðardóttir skoraði níu mörk fyrir Hauka og Guðrún Erla Bjarnadóttir bætti við fimm mörkum. Saga Sif Gísladóttir fór á kostum í marki Hauka og varði átján skot.

Haukar eru ásamt Aftureldingu á botni deildarinnar án stiga en KA/Þór er með fjögur stig í 4. sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×