Ragnar segir að síðastliðið ár hafi verið það erfiðasta í hans lífi. Samhliða veikindum eiginkonu sinnar mátti hann eiga við slúðursögur sem gengu manna á milli.
Hjónin svöruðu á sínum tíma á Instagram fyrir slúður er sneri að því að peningar sem runnu inn á styrktarreikning fyrir Fanneyju hefðu verið notaðir í annað en að bregðast við veikindum hennar.
Ragnar segist ekki óska sínum versta óvini það að þurfa taka á svona málum á eins erfiðum tíma og hann varð að gera.
„Ég held að það geti enginn gert sér í hugarlund hvernig það er,“ segir Ragnar um þær sögur sem hann sat undir á meðan eiginkona hans háði lokabaráttu við meinið.
„Það að aðilar skuli tjá sig um þau spor sem við vorum í eða setja út á einhverja hluti er svona álíka gáfulegt og að miðaldra karlmenn séu að tjá sig um meðgöngurof og annað,“ segir Ragnar Snær.
„Við tækluðum svona smáatriði sem okkur fannst mikilvægt að hreinsa upp strax. Við vissum af svo mörgum öðrum hlutum sem er bara ólýsanlega sárt að hugsa út í. Einhver heyrir kannski eina slúðursögu frá einhverjum sem veit tvö prósent, fimm prósent um málið. Sú vitneskja er byggð á sandi og svo er byggt ofan á það. Það er oft talað um hitt og þetta sem er bara þvæla frá a til ö. Jafnvel af aðilum sem við treystum sem áttu að vera nánir okkur. Það fyrir mér er í dag ofboðslega sárt þegar maður hugsar til baka. Fanney deyr sár og ósátt út í nokkra aðila. Út af einhverju svona bulli,“ segir Ragnar.
Hann bætir við að þau tvö hafi alltaf verið þau einu sem vissu nákvæmlega allan sannleikann.
Þau hjónin hafi haft mjög góðar ástæður fyrir því af hverju þau tjáðu sig ekki um þessa hluti á sínum tíma.
Hef hingað til verið hljóður
„Ég ætti ekki að eyða miklum tíma í að tala um þessa hluti en það er samt mikilvægt að halda til haga að orð og gjörðir hafa afleiðingar. Ég hef hingað til verið hljóður en við skulum hafa það alveg á hreinu að ef einhver vogar sér að halda áfram með einhverja svona þvælu þá neyðist ég til að draga viðkomandi aðila fram og aftur í drullusvaðinu. Með staðreyndirnar, sannleikann og alla vitneskjuna hundrað prósent mín megin. Það yrði ekki gert af einhverri hefndargirnd, þetta snýst ekkert um það. Þetta snýst um að rétt skal vera rétt,“ segir Ragnar.Þau Fanney skrifuðu niður allar þær sögur sem þau heyrðu á sínum tíma og frá hverjum. Hann geymir þær allar í hefti.
„Þetta hafði afskaplega slæm áhrif á okkur á langerfiðasta tímanum í ferlinu. Ég ætla sannarlega að vona það að viðkomandi aðilar geti núna litið í spegil, horft á sjálfan sig og hugsað að frá og með deginum í dag ætla ég að gera betur. Þetta er svo sannarlega ekki framkoma sem ég myndi óska mínum versta óvini. Á ákveðnum tímapunkti í ferlinu var mér og Fanneyju algjörlega ofboðið. Ekki misskilja mig. Þetta var nánast allt ást og ég man ekki eftir einu neikvæðu skilaboði enda myndi enginn þora eða vilja segja eitthvað svona við mig eða okkur. Þetta snýst bara um að hafa eitthvað til að snakka á í saumaklúbbnum. En á þessum tímapunkti ofbýður okkur og við byrjum að skrifa niður allt og sitja yfir þessu síðustu mánuðina og síðustu vikurnar sem Fanney á eftir ólifað og á þeim tímapunkti áttuðum við okkur engan veginn á því að það færi þannig.“
Ragnar mætti í Einkalífið með 160 þéttskrifaðar blaðsíður sem þau hjónin skrifuðu saman.
„Maður er bara kominn með heila bók og í lokin töluðum við þannig að þetta væri nú bara eitthvað sem hægt væri að gefa út á einhverjum tímapunkti. Ég er ekki kominn hingað til að tala um einhverja bók eða fara auglýsa einhverja bók. Og ég veit ekki hvort ég myndi undir einhverjum kringumstæðum gefa svoleiðis út. Mér finnst það mjög ólíklegt en ég veit það ekki. Kannski eftir tvö ár eða tuttugu ár en mjög líklega ekki. Við sátum stundum saman og hlutir sem Fanney sagði, hlutir sem ég sagði og allt í vitna viðurvist. Stundum með löggildan aðila og allt undirritað. Okkur ofbauð bara,“ segir Ragnar.
Í þættinum hér að ofan ræðir Ragnar einnig um síðastliðið ár og hvernig var að takast á við þennan erfiða sjúkdóm sem maki og aðstandandi, hvernig það hafi verið að reyna vera jákvæður og takast á við verkefnið af æðruleysi, hvernig stuðningur almennings og fjölskyldu þeirra snerti við þeim tveim, hvort hann sé í dag reiður maður, um síðustu daga Fanneyjar og að lokum um framtíðina hjá honum og börnunum tveim. Hann talar einstaklega fallega um Fanneyju sína og ætlar sér að halda minningu hennar á lofti um ókomna tíð.