Meðalhiti jarðar í september jafnaði hlýjasta septembermánuð frá því að beinar mælingar hófust. Samkvæmt tölum Haf- og loftslagsstofnunar Bandaríkjanna (NOAA) stefnir í að árið í ár verði það annað hlýjasta í mælingasögunni.
Hitinn var 0,95°C yfir meðaltali 20. aldar í september, sá sami og methitinn sem mældist í september árið 2015. September var jafnframt 43. septembermánuðurinn í röð og 417. mánuðurinn í röð með hita yfir meðaltalinu.
NOAA telur nú nær öruggt að 2019 verði á meðal fimm hlýjustu ára frá upphafi mælinga fyrir um 140 árum. Líklegast verði það á bilinu annað til fjórða hlýjasta árið. Mánaðarmet var slegið á 7,93% land- og hafsvæða jarðar í september. Hvergi var kuldamet slegið.
Sérstaklega hlýtt var í Norður-Ameríku og á norðurhveli almennt í september. Hitamet var slegið yfir Norður-Ameríku og í Suður-Ameríku, Afríku, Asíu, Mexíkóflóa og í kringum Havaí var mánuðurinn sá þriðji hlýjasti frá því að mælingar hófust. Samkvæmt mælingum Veðurstofu Íslands var meðalhiti í Reykjavík 2,3 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 og einni gráðu yfir meðallagi síðustu tíu ára.
Útbreiðsla hafíss á norðurskautinu í september var sú þriðja minnsta frá því að gervihnattamælingar hófust undir lok 8. áratugarins. Hún var rétt tæpum þriðjungi undir meðaltali áranna 1981 til 2010. Þegar útbreiðsla hafíssins var minnst í lok sumars nam hún um 4,1 milljón ferkílómetra. Það var önnur minnsta lágmarksútbreiðsla hafíssins, jöfn í öðru sæti með árunum 2007 og 2016.
Við Suðurskautslandið var hafísþekjan 1,3% minni en að meðaltali á milli 1981 og 2010. Útbreiðslan var sú þrettánda minnsta þar í mælingasögunni.
Tölur NOAA lýsa þeirri hnattrænu hlýnun sem menn hafa valdið á jörðinni frá iðnbyltingu með losun sinni á gróðurhúsalofttegundum, fyrst og fremst með bruna á jarðefnaeldsneyti eins og kolum, olíu og gasi. Eins og veðurfræðingar Washington Post benda þó á er hlýnun jarðar ekki línuleg þar sem hvert ár er því fyrra hlýrra. Hnattræn hlýnun er mæld yfir lengri tímabil, að minnsta kosti áratugi og þaðan af lengur.

