Erlent

Swinson viss um að hún væri betri forsætisráðherra en Johnson og Corbyn

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Þetta verða fyrstu kosningar Frjálslyndra demókrata undir stjórn Jo Swinson.
Þetta verða fyrstu kosningar Frjálslyndra demókrata undir stjórn Jo Swinson. Vísir/AP
Frjálslyndir Demókratar á Bretlandi settu kosningabaráttu sína formlega í dag. Þeir lofa áframhaldandi veru í Evrópusambandinu. Þetta verða fyrstu kosningar Frjálslyndra demókrata undir stjórn Jo Swinson. Hún tók við flokknum af Vince Cable í júlí en í maí hafði flokkurinn þrefaldað fylgi sitt í Evrópuþingkosningum.

Flokksmenn hafa reynt að skapa sér sérstöðu með því að tala opinskátt um að hætta við útgöngu úr Evrópusambandinu, komist flokkurinn til valda.

Um nákvæmlega það snerist einmitt ræða Swinson í dag. Sagði að á hefðbundnari tímum hefði markmiðið ef til vill verið að tvöfalda sætafjölda flokksins.

Landið þarnast þess að við séum djarfari núna og við tökum þeirri áskorun. Af því valið stendur um framtíð landsins okkar fyrir komandi kynslóðir,“ sagði Swinson og hélt áfram:

„Ég bjóst aldrei við því að ég myndi standa hérna og segja að ég væri í framboði til að verða forsætisráðherra. En þegar ég lít á Boris Johnson og Jeremy Corbyn er ég algerlega viss um að ég gæti staðið mig betur en hvor þeirra um sig.“

Flokkur Swinson mælist þó ekki jafnvel og Íhaldsflokkurinn né Verkamannaflokkurinn í könnunum. Fylgið er þó töluvert umfram það sem var í síðustu kosningum. Einmenningskjördæmi eru í Bretlandi og því alls ekki víst að þessi sautján prósent myndu skila sama hlutfalli þingsæta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×