Fótbolti

Kovac: Rétt ákvörðun að reka mig

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Niko Kovac í sínum síðasta leik sem stjóri Bayern
Niko Kovac í sínum síðasta leik sem stjóri Bayern vísir/getty
Þýska stórveldið Bayern Munchen tilkynnti um uppsögn króatíska knattspyrnustjórans Niko Kovac í gærkvöldi í kjölfar 5-1 taps gegn Eintracht Frankfurt í þýsku Bundesligunni á laugardag.

Uppsögnin kom Kovac ekki í opna skjöldu en hann átti langan fund með Karl-Heinz Rummenigge, Uli Höness og Hasan Salihamidzic í gær þar sem þessi ákvörðun varð niðurstaðan.

„Ég tel að þetta sé rétt ákvörðun hjá klúbbnum á þessum tímapunkti. Úrslitin og spilamennskan í síðustu leikjum fær mig til að trúa því,“ segir Kovac.

„Robert bróðir minn og ég viljum þakka Bayern fyrir þetta eina og hálfa ár. Á þessum tíma tókst liðinu okkar að vinna deildina, bikarkeppnina og þýska ofurbikarinn. Þetta var góður tími og ég óska félaginu alls hins besta,“ sagði auðmjúkur Kovac.

Ítalinn Max Allegri, fyrrum stjóri Juventus og AC Milan, þykir líklegastur til að taka við starfinu en ólíklegt verður að teljast að nýr maður verði kominn í brúnna þegar Bayern mætir Borussia Dortmund um næstu helgi í algjörum lykilleik í toppbaráttu þýsku Bundesligunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×