Handbolti

Seinni bylgjan: HK sendi skilaboð með sigrinum á Val

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Síðustu viku hefur mikið verið rætt um hversu ójöfn Olís-deild kvenna er. HK kom hins vegar öllum á óvart með því að vinna Íslands- og bikarmeistara Vals, 24-31, á Hlíðarenda á sunnudaginn. Vafalaust óvæntustu úrslit tímabilsins.

„Ég er svo ánægður með HK. Þær tróðu sokk upp í nokkra aðila sem voru á villigötum með þessa umræðu sem hefur verið í þjóðfélaginu; að engin lið ættu möguleika í Val og Fram,“ sagði Jóhann Gunnar Einarsson í Seinni bylgjunni í gær.

„Nokkrar í HK-liðinu áttu nánast leik lífs síns á meðan það voru rosa margar hjá Val sem áttu ekki góðan dag. HK sendi skilaboð með þessum sigri. Þetta er risastórt fyrir HK.“

Díana Kristín Sigmarsdóttir átti frábæran leik fyrir HK og skoraði tíu mörk. Hún var valin leikmaður umferðarinnar hjá Seinni bylgjunni.

„Ég man eftir Díönu í yngri flokkunum í Fram og man hvað hún var skotföst. Ég held að hún sé nánast skotfastasti leikmaðurinn í deildinni. Hún er ógeðslega góð í seinni bylgjunni. Valur réði ekkert við hana,“ sagði Jóhann Gunnar.

Þrír aðrir leikir fóru fram í Olís-deild kvenna um helgina. Stjarnan og Haukar gerðu jafntefli, 22-22,ÍBV vann botnslaginn gegn Aftureldingu, 23-31, og Fram rústaði KA/Þór, 43-18.

Alla umræðuna um Olís-deild kvenna má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×