Innlent

Fimmtugar hollenskar konur neita sök í kókaínmáli

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Konurnar hafa verið í gæsluvarðhaldi í þrjá mánuði. Sá tími dregst frá refsingunni verði þær fundnar sekar.
Konurnar hafa verið í gæsluvarðhaldi í þrjá mánuði. Sá tími dregst frá refsingunni verði þær fundnar sekar. Vísir/Vilhelm
Tvær rúmlega fimmtugar hollenskar konur neita sök í máli héraðssaksóknara á hendur þeim fyrir innflutning á rúmlega kílói af kókaíni til landsins þann 29. ágúst síðastliðinn. Konurnar eru par og voru með stóran hluta efnisins innvortis.

Fréttastofa greindi frá málinu í september síðastliðnum en konurnar hafa verið í gæsluvarðhaldi í fangelsinu á Hólmsheiði síðan þær voru handteknar. Þær komu til landsins með áætlunarflugi Icelandair frá Brussel í Belgíu.

Við leit í fórum annarrar konunnar fundust 237 grömm af kókaíni af 58% styrkleika innvortis og í nærbuxum konunnar. Hin konan faldi 775 grömm af kókaíni innvortis en efnið var af styrkleika 61%. Reikna má með að efnið yrði þynnt að minnsta kosti til helminga fyrir götusölu og næmi götuvirði efnanna tugum milljóna króna.

Brot kvennanna varðar 173. grein almennra hegningarlaga en hámarksrefsing er tólf ára fangelsi. Í sambærilegu máli fyrir fjórum árum hlutu tvær franskar stúlkur fimmtán mánaða fangelsisdóm fyrir brot sín.

Aðalmeðferð í málinu fer fram þann 13. desember næstkomandi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×