Segja má að jólaandinn hafi fyllt aðalsal Háskólabíós á meðan á frumsýningu á íslensku kvikmyndinni Bergmál stóð á þriðjudaginn var.
Leikstjórinn og handritshöfundurinn Rúnar Rúnarsson, sem áður hefur m.a leikstýrt kvikmyndunum Þrestir og Eldfjall, fer hér svo sannarlega nýjar leiðir og brýtur upp hið hefðbundna form kvikmyndar.

Yfir þrjú hundruð leikarar
Engir aðalleikarar eru í kvikmyndinni og í raun engir þekktir leikarar en í kringum 330 manns fara með hlutverk í henni.Ekki er um heildstæðan söguþráð að ræða heldur sjáum við 58 ljúfar, sárar, fyndnar og bitrar hversdagslegar örsögur. Allar eru þær leiknar af lítt - eða óreyndum leikurum sem augljóslega er vel stýrt og ekki er að sjá að um frumraun fyrir framan kvikmyndavél er að ræða í langflestum tilvikum.

Nú þegar hefur verið ákveðið að myndin fari í sýningar í 25 kvikmyndahúsum í Hollandi í desember og hefur hún verið sýnd á kvikmyndahátíðum víða um heim frá því í haust, við góðar undirtektir.
Íslensk jól ferðast því víða þetta árið og ættu íslensk jólabörn, kvikmyndaáhugafólk og þeir sem almennt hafa áhuga á mannlegu eðli og ýmsum birtingarmyndum þess ekki að láta Bergmál framhjá sér fara.





