Sport

Anton Sveinn með Íslandsmet í fyrsta sundi á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anton Sveinn Mckee.
Anton Sveinn Mckee. EPA-EFE/ROMAN PILIPEY
Anton Sveinn Mckee tryggði sér sæti í undanúrslitum í 50 metra bringusundi á EM í 25 metra laug í Glasgow.

Anton Sveinn var fyrstur Íslendinga til að keppa á mótinu og hann kom annar í mark í sínum riðli á 26,43 sekúndum. Anton bætti um leið eigið Íslandsmet frá árinu 2018 en það var 26,74 sekúndur.

Anton var með sjötta besta tímann í undanrásunum en undanúrslitin fara fram seinna í dag. Hann ætti því að eiga góða möguleika á að tryggja sér sæti í úrslitasundinu. Undanúrslitasundið fer fram klukkan 17.00 í dag.

Eygló Ósk Gústafsdóttir syndir í undanrásum í 100 metra baksundi á eftir og íslenska boðsundssveitin mun síðan keppa í 4x50 m skriðsund karla.

Dadó Fenrir Jasminuson, Ingibjörg Kristín Jónsdóttir, Jóhanna Elín Guðmundsdóttir, Kolbeinn Hrafnkelsson, Kristinn Þórarinsson og Snæfríður Sól Jórunnardóttir keppa einnig á Evrópumeistaramótinu í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×