Það gilda ýmsar reglur um hönnun bíla sem á að selja í Evrópu. Miðað við kynningarútgáfu af Cybertruck frá Tesla er líklegt að hann þyrfti til dæmis að vera með hliðarspegla, að minnsta kosti myndavélaútskot, framljósin þurfa að vera stærri og meiri aðskilnaður á milli þeirra og svo framvegis.
Stefan Teller, sérfræðingur í öryggismálum bifreiða hjá SGS-TÜV Saar HmbH segir í samtali við Spiegel Online að „meiriháttar breytingayrði þörf á grunni bílsins“.
Í Evrópu eru strangari kröfur um fylgni við staðla en í Bandaríkjunum. Vestanhafs er það í höndum framleiðandanna sjálfra að staðfesta að bílar þeirra standist öryggisstaðla. Í Evrópu er aðkoma óháðs þriðja aðila nauðsynleg til að votta að bílar séu hæfir á götuna. Sama gildir þegar bílar bandarískra framleiðanda eru markaðsettir í Evrópu.
Þá er sennilegt að Cybertruck þyrfti að vera á minni dekkjum, vera með rúðuþurrkur og rúnaðari kanta til að standast vottunarferlið.
„Framendi bíls má ekki vera of stífur. Stuðarinn og húddið verða að geta dregið úr höggi við árekstur bílsins við gangandi vegfarendur,“ að sögn Teller. Cybertruck er sennilegast full harður í horn að taka. Það að vera með nánast óhaggandi yfirbyggingu er ekki gott ef árekstur verður, því orkan við höggið færist þá öll á farþega bílsins. Eins og sjá má í myndabandinu hér að ofan virkar yfirbygging Cybertruck ansi sterkbyggð, þótt rúðurnar hafi ekki staðist prófanirnar. Betra að vera með ögn mýkri yfirbyggingu. Að sögn Teller myndu loftpúðar ekki duga til að hjálpa við þessar aðstæður.