Innlent

Hundruð sjálfboðaliða sinna störfum sem um gilda kjarasamningar

Erla Björg Gunnarsdóttir og Kristín Ólafsdóttir skrifa

Hundruð sjálfboðaliða koma til Íslands á ári hverju og sinna störfum sem um gilda kjarasamningar. Dæmi eru um störf á veitingastöðum í borginni, barnagæslu og heimilisstörf og jafnvel iðnaðarstörf á heimilum.

Á hverju ári koma um 600 sjálfboðaliðar til að starfa á Íslandi. Um þriðjungur þeirra starfar í störfum tengdum ferðaþjónustunni, en einhver hluti vinnur í þéttbýlinu og eru sjálfboðaliðar á börum og veitingahúsum. Þetta eru meðal niðurstaðna Guðbjargar Rafnsdóttur og Jónínu Einarsdóttur sem greindu tvær alþjóðlegar heimasíður sem auglýsa eftir sjálfboðaliðum.

„Næstum 100% er verið að óska eftir sjálfboðaliðum í störf sem um gilda kjarasamningar,“ segir Guðbjörg.

Í langflestum tilfellum er óskað eftir sjálfboðaliðum til starfa í sveitum, við heimilisverk og önnur sveitastörf. Ýmsar framkvæmdir eru einnig ofarlega á lista, jafnvel á einkaheimilum, að gera upp húsið eða laga eldhúsið. 

Stöð 2

Aðrar algengar auglýsingar eru barnagæsla, dagvinna, þjónustustörf og við tungumálakennslu. Í mörgum tilvikum er óskað eftir fleiri en einum sjálfboðaliða á hvern stað og er vitað um veitinga- og gistihús sem auglýsti eftir fjörutíu sjálfboðaliðum. Aðilar vinnumarkaðarins og aðrir atvinnurekendur hafa bent á að þetta sé vandamál.

„Svo hafa fyrirtæki önnur verið að benda á að þetta skekki samkeppnisstöðu þeirra mjög, að sumir greiði laun og aðrir ekki.“

Guðbjörg segir flesta sjálfboðaliðana ungt fólk í leit að ævintýrum en einhverjir eru að flýja atvinnuleysi og erfiðleika í heimalandinu. Fæstir vita að þeir geti og ættu í raun að fá borgað fyrir störf sín. Einhverjir upplifa slæman aðbúnað en það er ekkert eftirlit og réttindi þeirra eru engin.

„Þetta fólk hefur engar sjúkratryggingar ef þau verða fyrir slysum eða slíku því þau hafa enga vinnusamaninga,“ segir Guðbjörg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×