Handbolti

Bjarki Már hoppaði fram úr íslenska Dananum og er orðinn markahæstur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bjarki Már Elísson hefur verið frábær í vetur.
Bjarki Már Elísson hefur verið frábær í vetur. Getty/ TF-Images

Íslenski landsliðsmaðurinn Bjarki Már Elísson er markahæsti leikmaður þýsku handboltadeildarinnar eftir frábæra frammistöðu sína á móti Erlangen í gær.

Bjarki skoraði þá 14 mörk úr 14 skotum í 34-32 sigri Lemgo á Erlangen en fimm marka hans komu úr vítaköstum.

Bjarki er þar með kominn með 144 mörk í 19 leikjum á tímabilinu eða meira en allir aðrir leikmenn deildarinnar. Þetta gera 7,6 mörk að meðaltali í leik.

Bjarki er fyrir löngu búinn að skora fleiri mörk fyrir Lemgo í ár en hann gerði í 34 leikjum með Füchse Berlin í fyrra (100).

Frammistaða hans á móti Erlangen kom honum fram úr íslenska Dananum Hans Lindberg sem er með 141 mark úr 19 leikjum. Þjóðverjinn Uwe Gensheimer er síðan þriðji mðe 128 mörk.

Hans Lindberg á íslenska foreldra en hefur búið í Danmörku og valdi það að spila fyrir danska landsliðið.

Bjarki hefur skorað 104 mörk utan af velli og 40 mörk úr vítum. Þeir Lindberg (68 mörk úr vítum) og Gensheimer (57 mörk úr vítum) eru báðir meira en þrjátíu mörkum á eftir Bjarki í mörkum utan af velli.

Einn leikmaður hefur þó skorað fleiri mörk en Bjarki utan af velli en Daninn Michael Damgaard hefur skorða 107 mörk utan af velli fyrir SC Magdeburg.  Damgaard tekur ekki víti fyrir sitt lið.

Þetta var það mesta sem Bjarki hefur skorað í einum leik í vetur en hann var með þrettán mörk á móti Kiel fyrr í vetur. Í báðum leikjunum nýtti hann öll skotin sín.

Bjarki hefur skorað tíu mörk eða fleiri í sex leikjum Lemgo í vetur og þá er hann með sjö mörk eða fleiri í þrettán af nítján leikjum.

Bjarki er með 52 mörk úr vinstra horni og 38 mörk úr hraðaupphlaupum. Hann hefur skorað 5 mörk af línu og 7 mörk með skotum fyrir utan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×