Dómari í Namibíu vísaði frá máli sem nokkrir fyrrverandi ráðherrar og einstaklingar þeim tengdir höfðuðu til að hnekkja gæsluvarðhaldi sem þeir voru dæmdir í. Sexmenningarnir eru grunaðir um spillingu, fjársvik og mútuþægni í tengslum við Samherjamálið svonefnda.
Staðarblaðið The Namibian greinir frá því að dómari við hæstarétt í Windhoek hafi vísað frá kröfu sexmenninganna um að handtaka þeirra yrði felld úr gildi á þeim forsendum að hún hefði verið ólögmæt í dag. Mál þeirra verði því næst tekið fyrir 20. febrúar.
Þeim Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra, Bernhardt Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformanni Fishcor, Tamson 'Fitty' Hatuikulipi, tengdasyni Esau og frænda áðurnefnds James, og Ricardo Gustavo, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækisins Namgomar, er gefið að sök að hafa þegið hið minnsta 103,6 milljónir namibíudala í mútur frá félögum tengdum Samherja, í skiptum fyrir aðgang að gjöfulum fiskimiðum Namibíu.
Sexmenningarnir voru handteknir í lok nóvember og dæmdir í gæsluvarðhald. Í byrjun desember féllu þeir frá kröfum um að vera látnir lausir gegn tryggingu.
