Viðskipti innlent

Langaði í stríð við eftirlitið en ákvað að láta frekar af störfum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Guðmundur Kristjánsson 
Guðmundur Kristjánsson  Vísir/vilhelm

Guðmundur Kristjánsson segist hafa ákveðið að láta af störfum sem forstjóri sjávarútvegsfyrirtækisins Brims í síðustu vikur eftir að Samkeppniseftirlitið tilkynnti honum að það hyggðist rannsaka tiltekin viðskipti Útgerðarfélags Reykjavíkur og tengdra aðila með eignarhluti í Brimi. Guðmundur segist hafa langað að fara í stríð við eftirlitið en ákveðið að skynsamlegast hafi verið að láta af störfum.

Þann 30. apríl barst tilkynning til Kauphallar þar sem fram kom að Guðmundur hafði ákveðið að láta af störfum sem forstjóri Brims hf. Í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar var hann sagður hætta vegna persónulegra ástæðna.

Í gær barst svo tilkynning frá Samkeppniseftirlitinu þar sem fram kom að það hyggðist rannsaka hvort stofnast hafi til yfirráða Útgerðarfélags Reykjavíkur hf. og tengdra aðila í Brimi hf. vegna tiltekinna viðskipta Útgerðarfélags Reykjavíkur hf. og tengdra aðila á árinu 2019 með eignarhluti í Brimi hf. Guðmundur er aðaleigandi Útgerðarfélags Reykjavíkur sem er stærsti hluthafinn í Brimi.

Guðmundur gaf ástæðuna fyrir starfslokunum í Kastljósi kvöldsins og vísaði hann þar í fyrirhugaða rannsókn Samkeppniseftirlitsins. Sagði hann eftirlitið hafa gert athugasemdir við það undanfarin tvö ár að hann væri forstjóri og á sama tíma stærsti eigandinn í stærsta hluthafanum.

„Þegar þeir [Samkeppniseftirlitið] tilkynntu okkur í síðustu viku að þetta væri eiginlega út af mér, raunverulega getur Brim ekki gert neitt á Íslandi því þeir eru alltaf að rannsaka mig, þá taldi ég best fyrir félagið, starfsfólkið og hluthafana að ég færi bara til hliðar. Mig langaði ekki til að fara, ég taldi það bara best,“ sagði Guðmundur.

Gagnrýndi hann Samkeppniseftirlitið fyrir að eyða það sem hann teldi vera mikla orku í að rannsaka íslensk útflutningsfyrirtæki sem væru aðallega í samkeppni við erlend fyrirtæki, og að eftirlitið þyrfti að vera skilvirkar.

„Mér finnst ekki ásættanlegt að Samkeppniseftirlit geti verið að rannsaka fyrirtæki og persónur svo árum skiptir,“ sagði Guðmundur.

Honum hafi langað að fara í stríð við eftirlitið en ákveðið að slíkt væri ekki skynsamlegt.

„Mig langaði til að fara í stríð við þá en skynsemin sagði mér að það væri ekki vit í því. Ég er það gamall núna en kannski fyrir mörgum árum hefði ég tekið slaginn við þá. Skynsemin sagði mér að það er betra að fara bara til hliðar, fyrirtækið haldi áfram og halda áfram með lífið.“

Guðmundur mun áfram sitja í stjórn félagsins og er eftir sem áður aðaleigandi stærsta hluthafa sjávarútvegsfyrirtækisins Brims.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×