Lögreglan í Paragvæ stöðvaði brasilíska fyrrverandi knattspyrnumanninn Ronaldinho fyrir að koma inn í landið á fölsuðu vegabréfi í gær. Ronaldinho var ekki handtekinn en hann og bróðir hans eru sagðir til rannsóknar.
Ronaldinho ferðaðist til Paragvæ ásamt bróður sínum vegna góðgerðaviðburðar þar í landi. Brasilísk yfirvöld sviptu hann vegabréfi sínu vegna vangoldinna skatta í júlí í fyrra. Bræðurnir eru sagðir neita allri sök og vera samvinnuþýðir við yfirvöld.
Breska ríkisútvarpið BBC segir að lögreglumenn hafi leitað á hóteli í Asunción, höfuðborg Paragvæ, þar sem bræðurnir gistu. Ronaldinho er sagður hafa framvísað fölsuðu paragvæsku vegabréfi við komuna til landsins.
„Ég virði vinsældir hans í íþróttaheiminum en það verður einnig að bera virðingu fyrir lögunum. Lögin gilda, óháð því hver þú ert,“ segir Euclides Acevedo, innanríkisráðherra Paragvæ um mál Ronaldinho.