Innlent

Sleikti kinn barns og játaði því ást sína

Andri Eysteinsson skrifar
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Suðurlands.
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Suðurlands. Vísir/Vilhelm

Karlmaður hefur verið dæmdur til 90 daga skilorðsbundinnar fangelsisvistar eftir að hafa gerst brotlegur gegn barnaverndarlögum og fyrir húsbrot. Dómur var kveðinn upp fimmtudaginn síðasta 7. maí fyrir Héraðsdómi Suðurlands.

Maðurinn játaði að hafa farið inn um ólæsta hurð inn á heimili barns árið 2018. Hafi hann þar sýnt háttsemi „sem fól í sér yfirgang, ruddaskap, ósiðlegt athæfi og vanvirðandi háttsemi gagnvart barninu.“ Fram kemur í dómi í málinu sem birtur hefur verið á vef Héraðsdóms að maðurinn hafi haft uppi ástarjátningar gagnvart barninu og sleikt kinn þess. Brotin teljast varða við 99. grein barnaverndarlaga.

Þá játaði ákærði að hafa farið inn um ólæsta hurð heimilis aðfaranótt laugardagsins 23. nóvember 2018. Þar hafi hann dvalið þar til húsráðendur komu að honum og vísuðu á dyr.

Ákærði játaði brot sín eins og áður sagði og var litið til þess, auk þeirrar staðreyndar að hann hafi ekki áður sætt refsingu var honum ákveðin refsing sem hljóðar upp á 90 daga skilorðsbundna fangelsisvist sem fellur niður að tveimur árum liðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×