Erlent

Johnson enn við stjórnvölinn þrátt fyrir sjúkrahúsleguna

Kjartan Kjartansson skrifar
Forsætisráðherrann var lagður inn á sjúkrahús heilags Tómasar í gærkvöldi. Hann hefur verið með þrálátan hita og kærasta hans segist hafa verið rúmliggjandi í viku án þess þó að hún hafi fengið greiningu á veikindunum.
Forsætisráðherrann var lagður inn á sjúkrahús heilags Tómasar í gærkvöldi. Hann hefur verið með þrálátan hita og kærasta hans segist hafa verið rúmliggjandi í viku án þess þó að hún hafi fengið greiningu á veikindunum. Vísir/EPA

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, stýrir enn ríkisstjórninni þrátt fyrir að hann hafi verið lagður inn á sjúkrahús vegna COVID-19-veikinda í gærkvöldi, að sögn innanríkisráðherra Bretlands. Dominic Raab, utanríkisráðherra, stýrir ríkisstjórnarfundum í fjarveru Johnson.

Forsætisráðherrann var fluttur á sjúkrahús vegna þrálátra einkenna COVID-19 sem nýtt afbrigði kórónuveiru veldur í gær. Það var sagt í „varúðarskyni“ og að ráðleggingum læknis. Johnson, sem er 55 ára gamall, greindist smitaður af veirunni fyrir tíu dögum og hefur unnið heima hjá sér síðan.

Robert Jenrick, innanríkisráðherra, sagði breska ríkisútvarpinu BBC í morgun, að vonir stæðu til þess að Johnson gæti snúið sem fyrst aftur í Downing-stræti 10.

„Ég er viss um að þetta er mjög erfitt fyrir hann, fyrir einhvern eins og Boris sem vill vera virkur í að stýra ríkisstjórninni úr brúnni, en hann stýrir engu að síður algerlega ríkisstjórninni,“ sagði Jenrick.

Bretar búa sig nú undir það sem stefnir í að vera versta vika faraldursins til þessa. Tilkynnt var um 600 ný dauðsföll vegna veirunnar í gær. Elísabet drottning ávarpaði þjóðina í gær og hvatti landsmenn til þess að leggja sitt af mörkum.

„Ég vona að um ókomin ár geti allir verið stoltir af því hvernig þeir brugðust við þessari áskorun og að þeir sem koma á eftir okkur segja að Bretar þessarar kynslóðar hafi verið eins sterkir og nokkur önnur,“ sagði drottningin sem er 93 ára gömul.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×