Fótbolti

Mourin­ho kvartaði undan búnings­klefanum á Old Traf­ford í endur­komunni

Anton Ingi Leifsson skrifar
Það fór vel á Mourinho og Solskjær í desember.
Það fór vel á Mourinho og Solskjær í desember. vísir/getty

Ole Gunnar Solskjær, stjóri Manchester United, segir að það hafi farið vel á með honum og Jose Mourinho, stjóra Tottenham, er liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni í desember.

Mourinho snéri þá aftur á Old Trafford eftir að hafa verið sagt upp störfum undir lok ársins 2018 eftir brösótt gengi og þungt loft í kringum hann. United vann leik liðanna í desember 2-1 en Solskjær segir að það hafi verið létt á honum og Portúgalanum fyrir leikinn.

„Við spjölluðum saman fyrir leikinn. Ég hafði ekki hitt hann almennilega áður, bara stutt þegar hann var með Chelsea og ég með Cardiff.“

„Það var gott spjall en hann kvartaði undan búningsklefa gestaliðsins, einhverju sem hann hafði breytt,“ sagði Solskjær við United We Stand stuðningsmannavefinn.

„Það var jákvætt andrúmsloft milli okkar og það var gott að fá hann aftur,“ bætti Norðmaðurinn við áður en hann fór að ræða um leikmannahópinn hjá United.

„Ég hef frekar holu í leikmannahópnum frekar en rasshaus. Persónuleiki er mjög mikilvægur. Við erum lið í liðaumhverfi. Þú vilt leikmenn sem eru með smá egó og dansa á brúninni en þeir þurfa að hafa tíma til þess aðlagast. Þú vilt ekki skemmd epli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×