Mikið var um dýrðir í kvöld þegar Íslensku hljóðbókaverðlaunin, Storytel awards, voru afhent í fyrsta sinn við hátíðlega athöfn í Hörpu. Eva María Jónsdóttir fjölmiðlakona var kynnir hátíðarinnar þar sem veitt voru verðlaun fyrir bestu hljóðbókina í flokki skáldsagna, glæpasagna, barna- og unglingabóka og almennra bóka.
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra ávarpaði gesti og afhenti verðlaun í flokki barna- og ungmennabóka en bókin Vetrargestir eftir Tómas Zoëga í lestri Sölku Sólar Eyfeld hreppti hnossið. Í flokki glæpasagna bar Marrið, frumraun Evu Bjargar Ægisdóttur, sigur úr bítum í lestri Írisar Tönju Flygenring.

Verðlaun fyrir bestu almennu hljóðbókina hlaut Héðinn Unnsteinsson fyrir bók sína Vertu úlfur, wargus esto, í lestri Hjálmars Hjálmarssonar. Bestu hljóðbókina í flokki skáldsagna þótti Gríma eftir Benný Sif Ísleifsdóttur í lestri Þórdísar Bjarkar Þorfinnsdóttur.
Sérstök heiðursverðlaun afhenti frú Eliza Reid forsetafrú honum Gísla Helgasyni fyrir mikilvægt frumkvöðlastarf í þágu hljóðbókmennta. Sigurvegarar hlutu glerlistaverk eftir sænska listamanninn Ludvig Löfgren.
Hljóðbókaverðlaunin eru með fyrstu viðburðunum sem fara fram í Hörpu eftir að létt var á samkomubanni og því nutu prúðbúnir gestir samvistar - í hæfilegri fjarlægð.