Erlent

Pólverjar loka landamærum sínum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands.
Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands. Vísir/getty

Yfirvöld í Póllandi hafa ákveðið að meina öllum erlendum farþegum aðgang að landinu næstu tíu daga frá og með næstkomandi sunnudegi. Þá verða allir pólskir ríkisborgarar látnir sæta fjórtán daga sóttkví við heimkomu. Um er að ræða aðgerðir til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar. Þetta tilkynnti Mateusz Morawiecki forsætisráðherra Póllands í kvöld.

„Ríkið mun ekki snúa baki við borgurum sínum. Hins vegar, við núverandi aðstæður, getum við ekki leyft okkur að halda landamærunum opnum fyrir útlendingum,“ sagði Morawiecki á blaðamannafundi í kvöld.

Þá verður verslunarmiðstöðum gert að loka hluta verslana sinna, auk þess sem veitingastöðum, börum og spilavítum verður lokað. Samkomubanni fyrir fleiri en fimmtíu manns hefur jafnframt verið komið á.

Alls eru staðfest 68 tilfelli kórónuveirunnar í Póllandi og eitt dauðsfall. Yfir tuttugu þúsund Pólverja eru búsettir á Íslandi samkvæmt tölum frá því í fyrra og flugsamgöngur frá Íslandi til Póllands eru töluverðar. Fyrr í kvöld tilkynntu Danir að þeir hygðust loka landamærum sínum á hádegi á morgun vegna kórónuveirunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×