Erlent

Ítalir sætta sig ekki við útskúfun vegna Covid-19

Samúel Karl Ólason skrifar
Ferðamenn standa við skakka turninn í Piza.
Ferðamenn standa við skakka turninn í Piza. EPA/FABIO MUZZI

Ekki má koma fram við Ítalíu eins og nýlendu fyrir holdsveika. Þetta segir Luigi Di Maio, utanríkisráðherra Ítalíu, og heitir hann því að Ítalir muni taka vel á móti ferðamönnum í sumar. Í sama mund varaði hann önnur ríki Evrópu við að meina Ítölum aðgang vegna Covid-19.

Mörg Evrópuríki eru nú að opna landamæri sín á varkárinn máta þar sem nýju kórónuveiran virðist víðast hvar á undanhaldi. Ítalir ætla að opna landamæri sín fyrir ferðamönnum þann 15. júní.

Forsvarsmenn einhverra ríkja hafa þó meinað borgurum ríkja sem urðu hvað verst úti í faraldrinum. Þar á meðal er Ítalía. Til að mynda tilkynntu yfirvöld Grikklands í gær að landamæri ríkisins yrðu opnuð fólki frá 29 löndum. Bretar, Spánverjar og Ítalir mega þó ekki ferðast til Grikklands.

Ítalía situr í þriðja sæti ríkja þar sem flestir hafa dáið vegna veirunnar, svo vitað sé, eða minnst 33.229 manns. Smituðum hefur þó fækkað stöðugt í þessum mánuði og er verið að draga úr félagsforðun þar. Til stendur að fella niður allar takmarkanir á ferðalögum milli mismunandi landshluta Ítalíu þann 3. júní.

Í yfirlýsingu á Facebook sagði Di Maio að ef ríki Evrópu ætluðu sér að mismuna ríkjum væri andi heimsálfunnar tapaður. Hann sagði að Ítalir myndu ekki sætta sig við útskúfun.

„Ef einhver heldur að þeir geti komið fram við okkur sem holdsveikinýlendu, ættu þeir að vita við munum ekki sætta okkur við það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×