Innlent

Reyndi að stinga lögreglu af og keyrði á tvo bíla

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögreglujónar stöðvuðu fjölmarga ökumenn vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna og/eða áfengis í gærkvöldi og í nótt.
Lögreglujónar stöðvuðu fjölmarga ökumenn vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna og/eða áfengis í gærkvöldi og í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu reyndi í gærkvöldi að hafa afskipti af ökumanni sem sinnti ekki stöðvunarmerkjum. Maðurinn reyndi að komast undan en missti skömmu síðar stjórn á bílnum keyrði framan á tvo bíla. Hann var handtekinn og er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna, að aka án ökuréttinda, hraðakstur og það að vera valdur að slysi.

Hann var vistaður í fangageymslu samkvæmt dagbók lögreglunnar.

Annar var stöðvaður á Krýsuvíkurvegi í nótt. Hann er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna, að aka ítrekað án réttinda, fara ekki að fyrirmælum lögreglu og fleira.

Lögregluþjónar stöðvuðu þar að auki fjölmarga ökumenn vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna og/eða áfengis í gærkvöldi og í nótt.

Í einum bílnum var 16 ára kona sem er grunuð um vörslu fíkniefna og ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Málið var unnið með aðkomu forráðamanna og tilkynningu til Barnaverndar.

Þá barst lögreglunni tilkynning um líkamsárás í Kópavogi í nótt. Tveir voru handteknir vegna hennar og vistaðir í fangageymslu vegna rannsóknar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×