Hjúkrunarfræðinemar við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri hafa sent frá sér stuðningsyfirlýsingu við kjarabaráttu hjúkrunarfræðinga. Nemarnir lofa því að þeir muni ekki ganga í störf þeirra ef til verkfalls kemur.
Nemarnir lýsa yfir fullum stuðningi við hjúkrunarfræðinga í verkfallsaðgerðunum og hvetja ríkið til þess að verða við „eðlilegum kröfum um laun í samræmi við menntun og ábyrgð“ og útrýma kynbundnum launamun.
Jafnframt hafi mikilvægi hjúkrunarfræðinga sannað sig undanfarna mánuði. Öllum sé ljóst að þeir séu mikilvægur hluti af öflugu heilbrigðiskerfi Íslendinga.
Fundi samninganefnda ríkisins og hjúkrunarfræðinga í húsakynnum ríkissáttasemjara var slitið um klukkan 13:30 í dag og hefur verið boðað til annars fundar klukkan 10 í fyrramálið.
Að óbreyttu hefjast verkfallsaðgerðir þann 22. júní næstkomandi.