Innlent

Dæmdur í 26 mánaða fangelsi fyrir kókaín- og met­am­feta­mín­smygl

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. Vísir/Vilhelm

Sergio Andrade Gentill var í dag dæmdur í 26 mánaða fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot. Þann 3. mars síðastliðinn flutti hann tæp tvö kíló af kókaíni og rúm fjögur grömm af metamfetamíni hingað til lands. Fíkniefnin flutti hann í farangri sínum í flugi til Keflavíkur.

Í dóminum, sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Reykjaness í dag, segir að Gentill hafi játað brot sitt skýlaust fyrir dóminum. Eins samþykkti hann kröfu ákæruvaldsins um að fíkniefnin yrðu gerð upptæk. Með játningunni, sem ekki var dregin í efa af dóminum, þótti sannað að Gentill hefði gerst sekur um þá háttsemi sem hann var ákærður fyrir.

Við ákvörðun refsingarinnar var litið til þess að hinn ákærði gekkst við sakargiftum frá upphafi rannsóknarinnar á máli hans og taldist það til refsimildunar. Hins vegar var einnig litið til þess að Gentill flutti hingað til lands „hættuleg fíkniefni af þó nokkrum styrkleika sem hann vissi eða mátti vita að var ætlað til söludreifingar hér á landi,“ og var það honum til refsiþyngingar.

Til frádráttar þeim tveimur árum og tveimur mánuðum sem Gentill var dæmdur til að afplána kemur gæsluvarðhald sem hann hefur sætt frá 3. mars síðastliðnum. Eins var Gentill gert að greiða 1.033.946 krónur í sakarkostnað, þar af 744.000 krónur í þóknun til skipaðs verjanda síns, sem og rúmlega 63.000 króna aksturskostnað verjanda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×