Innlent

Guðni með 93% fylgi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Guðmundur Franklín Jónsson og Guðni Th. Jóhannesson.
Guðmundur Franklín Jónsson og Guðni Th. Jóhannesson. Vísir/Vilhelm

Samkvæmt nýrri könnun sem gerð var af Gallup er Guðni Th. Jóhannesson, sitjandi forseti Íslands, með 93,5 prósenta fylgi í aðdraganda forsetakosninganna sem fram fara næstkomandi laugardag. Guðmundur Franklín Jónsson, mótframbjóðandi hans, er með 6,5 prósenta fylgi.

Þetta kemur fram í frétt Ríkisútvarpsins. Miðað við þessar tölur hefur Guðni aukið fylgi sitt um rúm þrjú prósentustig, sé miðað við þjóðarpúls Gallup sem birtist snemma í júní. Samkvæmt honum var fylgi Guðna 90,4 prósent, en fylgi Guðmundar 9,6 prósent.

Hátt í 98 prósent kvenna sem svöruðu könnuninni sögðust ætla að kjósa Guðna, samanborið við 89 prósent karla. Þá sögðust 53 prósent þeirra svarenda sem styðja Miðflokkinn ætla að kjósa Guðmund Franklín, en Guðni er með yfirburðafylgi hjá stuðningsmönnum allra annarra flokka.

Rúmlega 91 prósent svarenda tóku afstöðu, en rétt yfir sex prósent sögðust ekki ætla að kjósa eða skila auðu. Rúmlega tvö og hálft prósent taka ekki afstöðu. Könnunin var gerð á netinu dagana 11. til 18. júní og var úrtaksstærðin 1.589. Þátttökuhlutfallið var rétt undir 52 prósentum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×