Innlent

Fyrstu tölur benda til stórsigurs Guðna

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Guðni Th. Jóhannesson kaus á Álftanesi í morgun.
Guðni Th. Jóhannesson kaus á Álftanesi í morgun. Vísir/Vilhelm

Fyrstu tölur úr Suðurkjördæmi og Norðvesturkjördæmi benda til þess að Guðni Th. Jóhannesson, sitjandi forseti Íslands, muni fara með nokkuð öruggan sigur af hólmi í forsetakosningunum sem nú standa yfir.

Alls hafa verið talin 10.605 atkvæði í kjördæmunum tveimur. Atkvæðaskipting fyrstu talna er á þá leið að Guðni hefur hlotið 91,2% talinna atkvæða eða 9.674, en Guðmundur Franklín Jónsson, mótframbjóðandi hans, 8,8% eða 931 atkvæði.

Flestir kjörstaðir opnuðu klukkan níu í morgun og lokuðu klukkan 22. Kjörstjórnir gátu þó ákveðið að opna síðar og loka fyrr.

Uppfært:

Fyrstu tölur úr Suðvesturkjördæmi hafa borist. Þar hlaut Guðmundur Franklín 1.200 atkvæði eða 11,8%. Guðni hlaut hins vegar 9.000 atkvæði, eða 88,2%

Uppfært:

Fyrstu tölur hafa borist úr Norðausturkjördæmi. Þar hlaut Guðmundur Franklín 194 atkvæði, eða 6,7%. Guðni hlaut 2.707 atkvæði, eða 93,3%.

Uppfært:

Fyrstu tölur úr Reykjavíkurkjördæmi norður eru á þá leið að Guðmundur Franklín er með 1.288 atkvæði, eða 8,5%. Guðni er hins vegar með 13.894 atkvæði, eða 91,5%.

Þá eru einnig komnar fyrstu tölur úr Reykjavíkurkjördæmi suður. Þar er Guðmundur með 1.389 atkvæði, eða 8,8%. Guðni er hins vegar með 14.414 atkvæði, eða 91,2%.

Þá hafa fyrstu tölur borist úr öllum kjördæmum, auk annarra talna úr Norðausturkjördæmi. Eins og er leiðir Guðni Th. Jóhannesson forseti með um 90% atkvæða á landsvísu, en Guðmundur Franklín er með um 10%. Alls hafa 59.564 atkvæði verið talin, þegar þetta er skrifað.

Lesendur eru minntir á kosningavakt Vísis, þar sem áfram verður fylgst grannt með gangi mála og nýjustu tölum. 

Fréttin var síðast uppfærð klukkan 23:45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×