Innlent

Drukknir, dólgslegir og dottandi í verslunum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Tveir ölvaðir ólátabelgir fengu að verja nóttinni í fangaklefa eftir að hafa raskað svefnfriði Breiðhyltinga.
Tveir ölvaðir ólátabelgir fengu að verja nóttinni í fangaklefa eftir að hafa raskað svefnfriði Breiðhyltinga. Vísir/Vilhelm Gunnarsson

Rúðubrot, lausir hestar, búðarhnupl og heimapartý voru meðal þeirra 64 mála sem lögreglan segir að hafi ratað inn á hennar borð í gærkvöldi og nótt.

Þannig á lögreglan að hafa haft hendur í hári tveggja þjófa sem höfðu stolið varningi úr verslunum. Annar þeirra á ennþá að hafa verið í versluninni þegar lögreglumenn bar að garði en hinn skammt frá vettvangi hnuplsins. Bæði tilfelli eru sögð hafa verið leyst með skýrslutöku á vettvangi og þýfinu skilað aftur upp í hillur.

Þá voru tveir drukknir menn sagðir hafa verið með leiðindi í Breiðholti um klukkan tvö í nótt. Þeir eiga til að mynda að hafa öskrað hástöfum og verið með annað ónæði, sem er ekki nánar tilgreint í dagbók lögreglu. Þar að auki eiga þeir ekki að hafa hlýtt fyrirmælum lögregluþjóna sem handtóku þá fyrir vikið.

Starfsmenn verslunar í miðborginni eru jafnframt sagðir hafa óskað eftir lögregluaðstoð á öðrum tímanum í nótt vegna „vegna ölvaðs manns sem hafði lagt sig“ í búðinni. Hann virðist þó ekki hafa verið þreyttari en svo að honum tókst að yfirgefa verslunina af sjálfsdáðum eftir að lögreglumennirnir vöktu hann. 

Þá virðist skemmtanahald næturinnar ekki hafa hætt á slaginu 23, þegar skemmtistaðir borgarinnar lokuðu af sóttvarnaástæðum. Lögreglan segist nefnilega hafa þurft að stöðva tvö heimasamkvæmi eftir miðnætti, annað í Vesturbæ Reykjavíkur en hitt í Grafarvogi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×