Yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans segir deildina ekki í stakk búna til að taka, óvænt, við keflinu af Íslenskri erfðagreiningu í byrjun næstu viku. Hann segir ákvörðun forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar hafa komið sér í opna skjöldu en mun eftir hádegi funda með starfsfólki veirufræðideildar um stöðuna sem upp er komin og næstu skref.
Starfsfólk á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans var ekki viðbúið því að Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar drægi fyrirtækið óvænt úr skimunarverkefninu og því allt í hers höndum á deildinni.
Þetta sagði Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á veirufræðideildinni, í samtali við fréttastofu. Hann sagði að til stæði að funda með öllu starfsfólki deildarinnar klukkan 13.00 í dag um hina óvæntu stöðu og reyna að koma auga á hugsanlega möguleika, ef einhverjir eru, til að leysa málið.
Samkvæmt fyrirliggjandi áætlun hefði staðið til að veirufræðideildin myndi taka yfir skimunarverkefnið á landamærunum þegar búið væri að auka afkastagetu og gera úrbætur á húsnæðinu til að koma fyrir nýjum tækjum sem séu nauðsynleg fyrir umfang verkefnisins.
Að sögn Karls verður húsnæðið þó ekki tilbúið fyrr en í lok ágúst. Eins og staðan er núna séu framkvæmdir á deildinni í fullum gangi.