Erlent

Fund­u lík í stöð­u­vatn­in­u sem Riv­er­a er tal­in hafa drukkn­að í

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Rivera hvarf á miðvikudaginn í síðustu viku á Piru-stöðuvatni í Kaiíforníu.
Rivera hvarf á miðvikudaginn í síðustu viku á Piru-stöðuvatni í Kaiíforníu. Getty/Axelle

Embætti lögreglustjórans í Ventura-sýslu í Kaliforníu í Bandaríkjunum tísti í dag að lík hafi fundist í Piru-stöðuvatni þar sem talið er að leik- og söngkonan Naya Rivera hafi drukknað aðeins 33 að aldri. Embættið mun halda blaðamannafund síðar í dag til að greina frá stöðu mála.

Rivera leigði bát klukkan 13 að staðartíma síðastliðinn miðvikudag og fór hún ásamt fjögurra ára syni sínum út á vatnið. Þegar þau áttu að skila bátnum þremur klukkustundum síðar sást hvergi til þeirra en stuttu síðar fannst sonur hennar um borð í bátnum þegar lögregla var kölluð til.

Talið er að Rivera hafi stungið sér til sunds með syni sínum sem var klæddur björgunarvesti en annað slíkt vesti fyrir fullorðinn fannst um borð í bátnum og er því talið að hún hafi ekki verið í vesti þegar þau fóru að synda. Drengurinn er þá talinn hafa komist aftur um borð en Rivera ekki. Sonur hennar, Josey Hollis Dorsey, fannst sofandi um borð í bátnum af lögreglunni.

Umfangsmikil leit hefur farið fram á svæðinu síðan drengurinn fannst en að sögn lögreglu hafa leitarskilyrði verið erfið á svæðinu. Embætti lögreglustjórans birti myndband í vikunni sem tekið er upp ofan í vatninu. Þar sést hvað það er gruggugt en varla sést nema nokkra sentímetra fram fyrir myndavélina.


Tengdar fréttir

Rivera talin hafa drukknað

Embætti lögreglustjórans í Ventura-sýslu gengur út frá því að leik- og söngkonan Naya Rivera hafi drukknað í Piru-stöðuvatni í suðurhluta Kaliforníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×