Innlent

Leituðu að inn­brots­þjófi í Elliða­ár­dal eftir eftir­för

Sylvía Hall skrifar
46 mál voru bókuð hjá lögreglu í gærkvöldi og í nótt.
46 mál voru bókuð hjá lögreglu í gærkvöldi og í nótt. Vísir/Vilhelm

Skömmu fyrir miðnætti barst lögreglu tilkynning um tilraun til innbrots í hús í Árbæ. Rúmlega klukkutíma síðar barst lögreglu svo önnur tilkynning um aðra innbrotstilraun í hús í sama hverfi og bentu lýsingar til þess að um sama mann væri að ræða samkvæmt upplýsingum úr dagbók lögreglu.

Tæplega korteri síðar kom lögregla auga á hinn grunaða þar sem hann ók bifreið. Hann sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu sem endaði með eftirför um hverfið. Maðurinn hljóp inn í Elliðaárdalinn og var hann handtekinn eftir nokkra leit í dalnum. Í ljós kom að hann hafði stolið bifreiðinni frá seinni innbrotsstaðnum og var hann vistaður í fangageymslu.

Einn var handtekinn fyrir heimilisofbeldi og var vistaður í fangageymslu.

Þá var tilkynnt um hópasöfnun ungmenna á tíunda tímanum í gærkvöldi þar sem einhverjir voru sagðir vopnaðir og undir áhrifum fíkniefna. Lögregla kom og fylgdist með í nokkra stund, nokkrir yfirgáfu svæðið en engin læti voru í þeim sem eftir voru.

Fleiri tilkynningar komu inn á borð lögreglu vegna ungmenna, en um klukkan átta í gærkvöldi barst tilkynning um krakka uppi á þaki Breiðholtsskóla. Þegar lögreglu bar að garði reyndist enginn vera þar.

Nokkrar tilkynningar sneru að ökumönnum sem voru líklega undir áhrifum áfengis eða fíkniefna, en einn ökumaður var stöðvaður á tíunda tímanum grunaður um akstur undir áhrifum, vörslu fíkniefna og að hafa ekið bifreið sviptur ökuréttindum. Sá reyndi að ljúga til um hver hann væri en var látinn laus að sýnatöku lokinni.

Alls voru 46 mál bókuð frá klukkan 17 til fimm í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×