Mikið fjör var á æfingasvæði Leeds United í gærmorgun en kvöldið áður hafði liðið tryggt sér sæti í ensku úrvalsdeildinni eftir sextán ára bið.
West Bromwich Albion mistókst að vinna Huddersfield á útivelli og þar af leiðandi var það staðfest að Leeds væri komið upp. Í gær var það svo endanlega staðfest að liðið myndi vinna enska B-deildina eftir að Brentford tapaði.
Marcelo Bielsa, Argentínumaðurinn skrautlegi, tók við liði Leeds árið 2018 og eftir það hefur leiðin legið upp á við. Þeir börðust um sætið lengi vel á síðustu leiktíð en nú loksins tókst það; að komast á ný í deild þeirra bestu.
Er Bielsa mætti á æfingasvæði Leeds í gærmorgun voru flestir leikmenn Leeds mættir og byrjaðir að hita upp. Það var gífurleg stemning í leikmönnunum sem sungu nafn stjórans hástöfum ásamt starfsliði sem var mætt.
Leeds spilar við Derby á útivelli í dag og hefst leikurinn klukkan 13.00. Leikurinn er í beinni á Stöð 2 Sport 2.
MARCELOOOO BIELSAAAA #lufc pic.twitter.com/oaAnm4Qutm
— Leeds United News (@LeedsUnitedYEP) July 18, 2020