Arnór Ingvi Traustason, landsliðsmaður í fótbolta, hefur jafnað sig af meiðslum og gæti spilað með Malmö á morgun í mikilvægum leik gegn Sirius á útivelli.
Arnór Ingvi missti af síðustu fjórum leikjum Malmö vegna meiðsla en þjálfari sænska liðsins, danska landsliðsgoðsögnin Jon Dahl Tomasson, segir kantmanninn kláran í slaginn.
„Arnór hefur æft með okkur síðustu þrjá daga,“ sagði Tomasson sem hefur vegnað ágætlega til þessa á fyrsta tímabili sínu sem þjálfari Malmö.
Sirius er eina liðið sem unnið hefur topplið Norrköping á tímabilinu. Fyrir leikina á morgun er Malmö í 2. sæti með 19 stig, fjórum stigu á eftir Norrköping, en Sirius er í 5. sæti með 16 stig og gæti með sigri komist upp að hlið Malmö.