Innlent

Í annarlegu ástandi með hnífinn á lofti

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hnífamaðurinn er sagður hafa verið á ferli um miðborg Reykjavíkur um miðnætti.
Hnífamaðurinn er sagður hafa verið á ferli um miðborg Reykjavíkur um miðnætti. Vísir/Vilhelm

Fimm vörðu nóttinni í fangaklefa að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Einum hinna handteknu er gefið að sök að hafa gengið um með hníf í miðborginni skömmu fyrir miðnætti.

Hnífamaðurinn er sagður hafa verið í annarlegu ástandi en ekki tilgreint hvort hann þótt ógnandi eða haft í hótunum við aðra gesti miðborgarinnar. Engu að síður taldi lögreglan nauðsynlegt að handataka manninn og láta hann dúsa í fangaklefa í nótt sem fyrr segir.

Af hinum 54 málunum sem lögreglan segir hafa komið inn á borð til sín í gærkvöldi og nótt nefnir hún aðeins umferðaróhöpp og hávaðatilkynningar.

Þannig á grjót að hafa fallið af vörubifreið á fólksbíl á Reykjanesbraut í gær. Skemmdir urðu á bifreiðinni en ekkert minnst á slys á fólki. Þá eiga lögregla og sjúkralið að hafa verið send á kvartmílubrautina í Hafnarfirði vegna mótorhjólaslyss. Einn er sagður hafa fengið minniháttar meiðsl. Þá segist lögreglan hafa handtekið ölvaðan ökumann sem olli minniháttar skemmdum.

Og um hávaðatilkynningarnar hefur lögreglan þetta að segja: „Lögreglu bárust þó nokkrar tilkynningar um hávaða víðsvegar um borgina á tímabilinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×