Stjórnendur, íbúar og aðstandendur hjúkrunarheimila hafa áhyggjur þeirri þróun sem orðið hefur í kórónuveirufaraldrinum og þá sérstaklega eftir að takmarkanir hafa verið settar á sumum heimilanna eftir fjölgun nýrra smita hér á landi.
Hrönn Ljótsdóttir, forstöðumaður Ísafoldar í Garðabæ, segir fréttirnar íþyngjandi. „Þetta er íþyngjandi fyrir alla og það hafa allir áhyggjur. Þegar við lokuðum í vor var það mjög þungt og reyndist mörgum þungbært,“ sagði Hrönn. „Það er eitthvað sem við viljum alls ekki fara í aftur.“
Hún bætir við að fólk sýni þessu þó mikinn skilning og styðja forstöðumenn í því að vernda viðkvæman hóp. Aðstandendur hafa verið beðnir um að takmarka heimsóknir sínar.
„Við erum að takmarka heimsóknir með því að biðja um að bara einn aðstandandi komi í heimsókn í einu. Því færri sem koma því minni líkur eru á að smit berist inn á heimilin,“ sagði forstöðumaður Ísafoldar sem er eitt af Hrafnistuheimilunum.
„Við fylgjumst vel með og erum í sambandi við sóttvarnir og landlækni. Neyðarstjórn Hrafnistu fundar á hverjum degi og tekur ákvarðanir eftir þeim upplýsingum sem liggja fyrir hverju sinni,“ sagði Hrönn.