Íbúar í Beirút, höfuðborg Líbanon, hafa lýst reiði sinni í garð ríkisstjórnar landsins vegna sprengingarinnar sem varð við höfn borgarinnar á þriðjudag. Einhver telja sprenginguna vera afleiðingu vanrækslu og spillingar stjórnvalda. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.
Minnst 135 eru látin eftir sprenginguna og yfir 4.000 særðust. Samkvæmt Michel Aoun, forseta Líbanon, sprungu 2.750 tonn af ammóníum-nítrati sem var ótryggilega geymt í vöruskemmu á höfninni. Breska ríkisútvarpið hefur eftir íbúum í Beirút að stjórnvöld hafi gerst sek um spillingu, vanrækslu og óstjórn.
„Beirút grætur, Beirút öskrar, fólk er haldið ofsahræðslu og fólk er þreytt,“ hefur BBC eftir Jude Chehab, kvikmyndagerðarmanni í Beirút. Þá kallaði hann eftir því að réttlæti yrði náð og þeim sem ábyrg eru fyrir sprengingunni verði refsað.
Þá er haft eftir Chadiu Elmeouchi Noun, íbúa Beirút sem liggur á spítala eftir sprenginguna, að ríkisstjórnin væri vanhæf.
„Ég vissi allan tímann að okkur væri stjórnað af vanhæfu fólki, vanhæfri ríkisstjórn,“ sagði Noun og bætti við að nú tæki steininn úr.
„Það sem þau hafa gert núna er algjörlega glæpsamlegt.“
Heimavarnarráð Líbanon hefur þá kallað eftir því að hinir ábyrgu verði látnir sæta „þyngstu mögulegu refsingu“ vegna málsins. Í gær tilkynnti ríkisstjórnin að þó nokkrir yfirmenn hafnarinnar í Beirút hefðu verið hnepptir í stofufangelsi meðan rannsókn á aðdraganda og ástæðu sprengingarinnar stendur yfir.