Uppfært: Fundurinn hefst klukkan 14:15.
Ríkisstjórnin hefur boðað til blaðamannafundar klukkan 14:15 í dag í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Meginefni fundarins er skimun á landamærum og næstu skref hennar. Fundurinn verður í beinni útsendingu hér á Vísi og þá verður einnig textalýsing hér að neðan.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn, Alma Möller landlæknir og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir fara yfir stöðu mála á fundinum.
Í minnisblaði Þórólfs til ráðherra í vikunni lagði hann fram níu möguleika þegar kæmi að aðgerðum á landamærunum. Hann segir engan þeirra gallalausan en suma þó betri en aðra.
Átta greindust á landamærunum og bíða þeir allir niðurstöðu úr mótefnamælingu samkvæmt nýjustu tölum. Alls hafa 45 greinst með virkt smit á landamærunum frá því að skimanir hófust þann 15. júní.
Hér að neðan má fylgjast með útsendingu sem og beinni textalýsingu.