Þrjú börn og einn fullorðinn sem lentu í árekstri tveggja bifreiða á Skeiðarársandi í gær eru enn á gjörgæslu en tvö barnanna eru sögð alvarlega slösuð. Samkvæmt upplýsingum Landspítalans er hluti hópsins enn til eftirlits en tveir voru útskrifaðir í gærkvöldi.
Alls slösuðust sjö manns í hörðum árekstri tveggja bifreiða á Suðurlandsvegi við Háöldukvísl á Skeiðarársandi síðdegis í gær. Níu ferðamenn frá Frakklandi og Suður-Kóreu voru í bílunum tveimur. Sjö þeirra voru fluttir með þyrlum Landhelgisgæslunnar á slysadeild í Fossvogi.
Í tilkynningu frá Landspítalanum nú í morgun kemur fram að af þeim sjö dvelji fjórir enn á gjörgæslu, þrjú börn og einn fullorðinn. Tvö barnanna séu alvarlega slösuð en það þriðja mun minna. Hinir þrír sem slösuðust hafi verið undir eftirliti á bráðamóttöku en tveir þeirra voru útskrifaðir í gærkvöldi. Sá þriðji sé enn til eftirlits.
Landspítalinn þakkar því að nýlega voru opnuð legurými á efri hæð bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi það að hægt var að takast á við slysið með „eðlilegum hætti“. Mikið hefur verið fjallað um álag og plássleysi á bráðamóttökunni undanfarið.