Fimmta skipinu, Ásgrími Halldórssyni SF, hefur verið bætt inn í loðnuleitarleiðangurinn sem nú er að hefjast við Austfirði. Stefnt er að því að allur leitarflotinn haldi til hafs í kvöld.
„Við bættum við skipi einfaldlega til að flýta fyrir og til að geta komist yfir stærra svæði í þeim veðurgluggum sem við höfum,“ sagði Birkir Bárðarson fiskifræðingur og leiðangursstjóri í samtali við Vísi í dag.
Sjá einnig hér: Segir mælingu loðnustofnsins afar mikilvæga

Birkir er um borð í hafrannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni, sem kom til Norðfjarðar í morgun ásamt Hákoni EA. Þar er einnig grænlenska skipið Polar Amaroq GR en Bjarni Ólafsson AK er á Seyðisfirði og Ásgrímur Halldórsson á Hornafirði.
„Við erum að vonast til að komast af stað í kvöld eða nótt,“ sagði Birkir en nýta þarf daginn til að kvarða bergmálsmæla í tveimur skipanna, Árna Friðrikssyni og Hákoni. Það er gert með því að setja málmkúlu undir skrokk þeirra svo þeir mæli allir eins.

Birkir segir að leitin muni hefjast út af Hvalbaksgrunni undan suðausturlandi og þangað fari væntanlega þrjú skip. Samtímis verði líklega tvö skip send til leitar út af Langanesi en það sé ekki endanlega ákveðið og ráðist meðal annars af veðurspá.
„Því miður er veðurútlit ekki sérstaklega gott en það er veðurgluggi næstu daga sem þarf að nýta vel,“ segir Birkir í viðtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar, sem einnig fjallar um málið.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2 frá brottför Árna Friðrikssonar úr höfn í Reykjavík í fyrradag.