Handbolti

ÍBV vann Þór/KA örugglega á heimavelli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
ÍBV lagði Þór/KA á heimavelli í dag.
ÍBV lagði Þór/KA á heimavelli í dag. Vísir/Bára

ÍBV vann öruggan 11 marka sigur á Þór/KA í Olís deild kvenna í dag, lokatölur 26-15. Sigurinn þýðir að ÍBV er komið upp að hlið Þór/KA í Olís deildinni.

Sigur dagsins var í raun aldrei í hættu en ferðalagið virðist hafa farið illa í gestina frá Akureyri. Skoruðu þær aðeins fimm mörk í fyrri hálfleik en staðan að honum loknum var 12-5. 

Þó svo að sóknarleikur Þór/KA hafi aðeins skánað í síðari hálfleik þá tókst þeim ekki að stöðva fínan sóknarleik Eyjakvenna og lokatölur því eins og áður kom fram 26-15.

Ásta Björt Júlíusdóttir skoraði sjö mörk fyrir ÍBV, þar af fimm af vítalínunni. Harpa Valey Gylfadóttir og Sunna Jónsdóttir komu þar á eftir með fimm mörk hvor. Hjá Þór/KA var Anna Þyrí Halldórsdóttir markahæst með þrjú mörk.

Martha Hermannsdóttir, einn besti leikmaður Akureyrarliðsins, náði sér engan veginn á strik en hún skoraði aðeins eitt mark og brenndi af tveimur vítum.

Liðin eru sem stendur í 6. og 7. deildinni með 10 stig hvort. Eru þau tveimur stigum frá Haukum sem  eru í 4. sæti deildarinnar en það er síðasta sætið sem gefur þátttökurétt í úrslitakeppni Olís deildarinnar.

Eyjastúlkur hafa nú leikið þrjá leiki í röð án þess að bíða ósigur. Þór/KA hefur á sama tíma tapað fjórum í röð.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×