Annar piltanna, sem lagðir voru inn á gjörgæsludeild Landspítalans eftir að hafa farið í Hafnarfjarðarhöfn, hefur verið færður á Barnaspítala Hringsins. Hinn pilturinn er enn á gjörgæsludeild.
Þrír voru í jepplingi sem fór fram af Óseyrarbryggju í Hafnarfirði föstudagskvöldið 17. janúar síðastliðinn. Einn þeirra komst út af sjálfsdáðum en hinum tveimur var bjargað af köfurum sem komu ýmist frá Landhelgisgæslunni, slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og ríkislögreglustjóra.
Sá sem komst úr bílnum sjálfur var útskrifaður af Landspítalanum um síðastliðna helgi. Hinir tveir voru lagðir inn á gjörgæsludeild. Þurfti að beita kælimeðferð á piltana tvo en annar þeirra var fluttur af gjörgæsludeild yfir á Barnaspítala Hringsins á fimmtudag. Sá þriðji er enn á gjörgæsludeild.
Rósa Kristjánsdóttir, deildarstjóri sálgæslu djákna og presta á Landspítalanum, segir í samtali við fréttastofu að foreldrar piltanna séu gríðarlega þakklátir fyrir þá samkennd og þann stuðning sem samfélagið hefur sýnt fjölskyldum þeirra á þessum erfiðu tímum.
Tildrög slyssins eru enn til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu en mikil hálka var þegar slysið varð. Hafnarsvæðið er vaktað með myndavélum og hefur lögreglan fengið aðgang að myndefni úr þeim.
