Umfjöllun og viðtöl: Valur - Stjarnan 35-22| Stjarnan átti engan séns í meistarana

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Valskonur eru líklegar.
Valskonur eru líklegar. vísir/bára

Valur vann öruggan 13 marka sigur á Stjörnunni á Hlíðarenda í kvöld 35-22. Leikurinn var jafn fyrstu 10 mínúturnar en eftir gott áhlaup heimakvenna var sigurinn aldrei í hættu. 

Stjörnunni vantaði mikið af lykilleikmönnum sem glíma við meiðsli. Þær Þórhildur Gunnarsdóttir, Þórey Anna Ásgeirsdóttir, Klaudia Powaga, Rakel Dögg Bragadóttir og Elena Birgisdóttir eru allar utan hóps um þessar mundir. Þetta eru stór skörð sem Sebastian Alexandersson, þjálfari liðsins þarf að fylla.

Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks og staðan jöfn eftir rétt um 10 mínútna leik, 5-5. Valskonur náðu síðan 5-0 kafla og breyttu þar stöðunni í 10-5. 

Vörnin hjá Stjörnunni var ekki nógu þétt og markvarslan eftir því, eða 5% markvarsla í fyrri hálfleik, eitt varið skot en staðan í hálfleik var 18-11, heimakonum í vil. 

Leikurinn breyttist lítið í síðari hálfleik, Valur hafði tögl og haldir á leiknum og náðu 10 marka forystu þegar 10 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik, 24-14. 

Stjörnustúlkur náðu aldrei alvöru atlögu og Valur sigldi heim öruggum tveimur stigum. Lokatölur á Hlíðarenda voru 35-22.

Af hverju vann Valur?  

Valur var nokkrum númerum of stórar fyrir Stjörnuna sem mætti með laskað lið til leiks í dag. Valur hélt skipulagi og var með mikla yfirburði á öllum stöðum í leiknum. 

Hverjar stóðu upp úr?

Lovísa Thompson var atkvæðamest á öllum vígstöðvum í dag, hún var markahæst með 8 mörk, átti 7 sköpuð færi og var með 7 löglegar stöðvanir varnarlega. Frábær leikur hjá henni en einnig voru Díana Dögg Magnúsdóttir og Ásdís Þóra Ágústsdóttir góðar í dag með samanlagt 13 mörk og 10 sköpuð færi. 

Stjörnustúlkur áttu erfitt uppdráttar frá fyrstu mínútu en þær Karen Tinna Demian og Sólveig Lára Kjærnested sýndu ágætis kafla.

Hvað gekk illa? 

Vörn og markvarsla hjá Stjörnunni var ekki til afspurnar. Liðið var aðeins með tvær löglegar stöðvanir og markvarslan var eftir því, aðeins 14%.  

Hvað er framundan? 

Í næstu umferð tekur Valur á móti ÍBV á Hliðarenda og Stjarnan fer í Kórinn þar sem þær mæta HK.  

Ágúst: Stærsta baráttan er um 2. sætið á Íslandi í dag

Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, var ánægður með leik liðsins í dag, skal engan undra eftir 13 marka sigur. 

„Við spiluðum nokkuð vel lungað af leiknum. Varnarleikurinn var góður, við vorum í smá vandræðum með Sollu (Sólveig Lára) og Sigrúnu Ásu á línunni en annað var undir kontról“ sagði Ágúst

„Það vantaði auðvitað gríðalega margar hjá Stjörnunni í dag svo það er ekki alveg að marka þetta, enn Stjarnan hefur að sama skapi breiðan hóp og það getur verið erfitt að slíta þær frá sér. Enn við náðum því um miðbik seinni hálfleiks.“ 

„Ég held að Fram sé nú besta liðið í dag, þetta er ekkert ósvipað og þetta var úti í Noregi á sínum tíma þegar Larvik voru alltaf með langbesta liðið. Stærsta baráttan var að taka 2. sætið, þannig er þetta hjá okkur í dag og við ætlum að reyna að taka það.“ 

Gústi vill þá meina að liðið eigi ekki möguleika á að berjast við Fram um titilinn. Valur eru þó ríkjandi meistarar eftir að hafa unnið þrefalt á síðasta ári en þjálfarar þessara liða, Ágúst Jóhannsson (Val) og Stefán Arnarson (Fram) hafa lengi verið þekkir fyrir að tala andstæðinginn svona upp

Sebastian Alexandersson, skaut létt á Gústa þegar hann skipti Írisi Björk Símonardóttur, markverði liðsins útaf þegar aðeins 4 mínútur voru til leiksloka og sigur Vals löngu öruggur, hvort hann þyrði í alvöru að taka hana útaf. Það mátti skynja kaldhæðni frá Basta enda Íris Björk búin að verja vel með rétt um 50% markvörslu í leiknum. 

„Það er ekki hans að ákveða hvernig ég spila leikinn, ég rúllaði á öllu mínu liði alveg niður í 14 ára gamlar stelpur svo ég veit ekki alveg hvað hann var að fara með þetta. Ég stjórna því bara hvernig ég spila mínu liði.“ 

Sebastian var ekki sáttur með leik liðsins í dag

 

Basti: Þessi hópur þarf að girða upp um sig

„Þær voru þrem til fjórum númerum of stórar fyrir okkur í dag“ sagði Sebastian Alexandersson, þjálfari Stjörnunnar eftir niðurlægingu á Hlíðarenda í kvöld 

„Við náðum ekki að halda því skipulagi sem við lögðum upp með og tókum þátt alltof hröðum leik í byrjun og missum þær síðan framúr okkur“ 

„Það er allavega gott að við fengum rúmar 15 mínútur með hreint U-lið inná og það var gaman að sjá hvernig þær standa í samanburði við bestu lið landsins. Þetta er jákvætt til lengri tíma litið enn það er ekkert jákvætt við það að vera rassskelltur“ 

Stjarnan var aðeins með einn bolta varin í hálfleik eða 5% markvörslu, Basti sem fyrrverandi landsliðs

markvörður var alls ekki sáttur við markvörslu liðsins í leiknum

„Auðvitað voru fullt af skotum sem ég hefði viljað sjá markverðina taka en varnarleikurinn fyrir framan var ekki neitt til þess að hrópa húrra fyrir. Vörn og markvarsla var ekki til útflutnings og í algjöru lágmarki í raun og veru“

Basti hefur áhyggjur af stöðu liðsins ef hann fer ekki að endurheimta einhverja lykilmenn inn úr meiðslum og segir að eins og staðan er núna sé liðið langt á eftir bestu liðunum 

„Ef að við erum ekki að fá tilbaka einhverja af lykilmönnunum okkar þá erum við bara langt, langt á eftir bestu liðunum. Það er kannski lán í óláni að vera svona undirmannaðar gegn liðunum fyrir ofan okkur en framundan eru leikir gegn liðunum í kringum okkur og þessi hópur þarf virkilega að girða upp um sig“

„Nokkrar þeirra eru frá í margar vikur, en einhverjar fara að nálgast, við erum bara í keppni við tímann“ sagði Sebastian sem gat lítið sagt til um það hvenær næstu menn kæmu inn

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira