Þingmenn Rússlands samþykktu samhljóða í morgun drög að stjórnarskrárbreytingum Vladimir Pútín, forseta landsins, er fyrsta umræðan um breytingarnar fór fram. Umræðan um stjórnarskrárbreytingarnar tók tvær klukkustundir. Allir 432 þingmenn Dúmunnar greiddu atkvæði með breytingunum, sem sérfræðingar segja ætlað að tryggja að Pútín haldi völdum sínum eftir að núverandi kjörtímabili hans lýkur árið 2024.
Ekki er liðin vika frá því að Pútín setti hugmyndina fyrst fram og sagði hann þeim ætlað að styrkja lýðræði Rússlands.
Pútín hefur verið við völd í Rússlandi frá 1999 og mest allan tímann sem forseti. Eftir tvö kjörtímabil sem forseti frá 2000 til 2008 varð Dmitry Medvedev forseti og Pútín forsætisráðherra. Stjórnarskrá Rússlands meinar forsetum að sitja meira en tvö kjörtímabil samfleytt. Eftir 2012 settist Pútín aftur í embætti forseta og var kjörtímabilið lent úr fjórum árum í sex. Medvedev var forsætisráðherra, þar til í síðustu viku.
Breytingarnar sem Pútín hefur lagt til fela meðal annars í sér að völd ríkisráðs Rússlands verði aukin til muna. Þar sitja ríkisstjórnar og aðrir embættismenn og samkvæmt tillögunum á ráðið að ákveða stefnumál Rússlands varðandi bæði utanríkismál og innanríkismál. Hlutverk ráðsins verður þó ítrekað frekar í öðrum lögum.
Einnig eigi þingið að geta skipað forsætisráðherra og aðra ráðherra og breytingar fela þar að auki í sér að lög Rússlands séu æðri alþjóðalögum.
Þar sem forseti má ekki sitja í embætti lengur en tvö kjörtímabil telja sérfræðingar að Pútín ætli sér mögulega að taka við stjórn ríkisráðsins og stjórna Rússlandi þannig áfram. Stjórnarskrárbreytingarnar fela einnig í sér að forsetum verði alfarið meinað að sitja lengur í embætti en í tvö kjörtímabil, samfleytt eða ekki.
Áætlað er að seinni umræðan fari fram þann 11. febrúar. Þingmenn og sérstök nefnd sem Pútín skipaði, hafa þegar stungið upp á ýmsum viðbótum við frumvarpsdrögin sem samþykkt voru í morgun.