Fjöldi þeirra sem fengu vernd hér á landi hefur aldrei verið meiri en í fyrra. Umsóknir um alþjóðlega vernd hér á Íslandi fjölgaði lítillega á milli ára og voru 867 í fyrra. Þær voru 800 árið 2018. Flestir umsækjendur komu frá Venesúela og Írak. Þá voru umsóknir hlutfallslega flestar á Íslandi af Norðurlöndunum. Þetta kemur fram í samantekt Útlendingastofnunar.
Þar segir að góður árangur hafi náðst við afgreiðslu umsókna og að afgreiddum umsóknum hafi fjölgað um 42 prósent miðað við árið á undan. Þá fækkaði óafgreiddum umsóknum um 37 prósent og málsmeðferðartími styttist verulega þegar leið á árið.
Stytti málsmeðferðartími og það hve stór hluti umsækjenda höfðu þörf fyrir vernd útskýrir fjölgun þeirra sem fengu vernd á árinu.
„Til viðbótar við þá 376 einstaklinga, sem fengu jákvæða niðurstöðu hjá Útlendingastofnun, fengu samtals 155 einstaklingar veitta alþjóðlega vernd eða mannúðarleyfi hjá kærunefnd útlendingamála, sem aðstandendur flóttamanna hér á landi eftir umsókn til Útlendingastofnunar eða sem kvótaflóttamenn í boði íslenskra stjórnvalda. Í heild fékk því 531 einstaklingur alþjóðlega vernd, viðbótarvernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum hér á landi árið 2019,“ segir á vef Útlendingastofnunar.
Umsækjendur um alþjóðlega vernd voru alls af 71 þjóðerni.


