Kornabarn greindist með kórónuveirusmit á Austurlandi í gær og er nú í einangrun. Barnið, sem er ekki búsett á Austurlandi, er eini einstaklingurinn í yngsta aldurshópnum með virkt smit.
Þetta staðfestir Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, í samtali við Vísi. Átta innanlandssmit greindust hér á landi í gær samkvæmt nýjustu tölum.
Fjögur börn 12 ára og yngri eru nú í einangrun með kórónuveirusmit; eitt kornabarn yngra en eins árs, eitt barn í aldurshópnum 1-5 ára og tvö börn á aldrinum 6-12 ára.
Sjö eru nú í einangrun á Austurlandi og 26 í sóttkví. Langflestir eru þó í einangrun á höfuðborgarsvæðinu eða alls 82.