Kínverska fjármálaráðuneytið gaf út í dag að þarlend stjórnvöld muni ráðstafa alls 10,26 milljörðum Bandaríkjadala, eða hátt í 1.300 milljörðum íslenskra króna, til að hamla frekari útbreiðslu Wuhan-kórónaveirunnar.
Verða fjármunirnir einkum nýttir til að tryggja að kínverskur almenningur hafi efni á greiningu og meðferð við sýkingunni, er fram kemur í yfirlýsingu á heimasíðu ráðuneytisins.
Einnig verður reynt að sjá til þess að öll umdæmi landsins hafi nægja fjármuni til þess að bregðast við útbreiðslu veirunnar með fullnægjandi hætti.
Fjöldi látinna vegna Wuhan-kórónaveirunnar svokölluðu tók mikið stökk í gær og er nú kominn yfir 800. Þá er fjöldi látinna einnig kominn yfir fjölda þeirra sem dóu vegna fuglaflensunnar árið 2003, þegar 774 létust. Hátt í 38 þúsund staðfest veirusmit hafa nú greinst, langflest innan Kína.
Wuhan-veiran er ný tegund kórónaveiru og ber formlega heitið 2019-nCoV, eða Nýja kórónaveiran. Veiran hefur stungið upp kollinum í tæplega 30 löndum.