Knattspyrnusamband Íslands hefur ákveðið hvernig miðasalan verður á umspilsleik Íslands og Rúmeníu sem fer fram á Laugardalsvellinum 26. mars.
Leikurinn er í undanúrslitum umspils í undankeppni EM 2020 en sigurvegarinn kemst í hreinan úrslitaleik um sæti á EM í sumar.
Miðasalan fer fram í þremur hlutum í lok febrúar og byrjun mars á Tix.is.
Þrír miðasölugluggar verða í boði. Fyrsti glugginn er fyrir kaupendur ársmiða og hefst hún miðvikudaginn 26. febrúar klukkan 12:00. Föstudaginn 28. febrúar geta kaupendur haustmiða keypt miða og hefst sú miðasala klukkan 12:00. Mánudaginn 2. mars hefst svo opin sala á miðum á leikinn klukkan 12:00.
Mest er hægt að kaupa 4 miða en þrjú miðaverð verða í boði:
3500 krónur
5500 krónur
7500 krónur
50% afsláttur verður í boði fyrir 16 ára og yngri.
Leikurinn fer fram 26. mars og verður leikinn á Laugardalsvelli. Sigurvegari viðureignarinnar mætir Búlgaríu eða Ungverjalandi í leik um laust sæti í lokakeppni EM 2020.
